Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar
Nú hafa tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána verið kynntar í grófum dráttum. Búmenn munu að sjálfsögðu kalla eftir því að slíkar leiðréttingar nái til búseturétthafa Búmanna til jafns við aðra. Á fundi með ráðherra húsnæðismála í sumar var farið fram á að húsnæðissamvinnufélögin gleymdust ekki í fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og í framhaldi af þeim fundi voru þau boð látin ganga til Búmanna að húsnæðissamvinnufélögin kæmu til með að vera með í skuldalækkuninni.
Á mbl.is þann 5. desember er haft eftir Sigurði Hannessyni formani sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána að hugmyndin með þessum aðgerðum hafi verið sú að styðja við fjölskyldur landsins og heimili. Skilgreining á lánum sem þetta tekur til er sú að þetta séu lán sem veiti rétt til vaxtabóta eins og hann er skilgreindur í lögum.
Í viðtalinu talar Sigurður um að félög sem reka félagslegt húsnæði fái ekki skuldaleiðréttingu í gegnum skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.
Eins og búseturétthafar Búmanna vita þá tilheyra þeir vaxtabótakerfinu og því falla þeir innan þess hóps sem nefndur er í viðtalinu. Búmenn reka heldur ekki félagslegt húsnæði.
Eins og búast má við þegar svo viðamikil aðgerð er kynnt þá koma upp ýmis mál sem þarf að upplýsa betur og skilgreina. Húsnæðissamvinnufélögin hafa sameiginlega kallað eftir fundi með Eygló Harðardóttur húsnæðismálaráðherra til að fylgja málinu eftir.
Stjórn og starfsmenn Búmanna hafa fulla trú á því að skuldaleiðréttingin verði látin ná til félagsins eins og annarra sem tilheyra vaxtabótakerfinu. 6.12.2013