Fréttatilkynning

Fréttatilkynning frá húsnæðissamvinnufélagi Búmanna hsf. að afloknum aðalfundi félagsins 15. Júní s.l.

 

Aðalfundur húsnæðissamvinnufélags Búmanna hsf. var haldinn á Grand hótel s.l. fimmtudag 15. júní að viðstöddu fjölmenni.

Í ávarpi formanns félagsins kom m.a. fram að alger viðsnúningur hefur orðið á stöðu félagsins. Í stað þess að vera gjaldþrotafélag 2015 er það orðið stórt félag á íslenskan mælikvarða. Sala á búseturétti íbúða Búmanna hefur gengið vel á öllum svæðum Búmanna enda eru engar eignir á lausu. Þær eignir sem losna og fara í sölu seljast jafnóðum. Allar íbúðir í Leigufélagi Búmanna eru komnar í útleigu og við lok leigusamnings eru búseturéttirnir  settir í sölu og þannig hafa þegar nokkrar eignir verið færðar upp í móðurfélagið. Af 22 íbúðum í Hveragerði, sem stjórnin ákvað að selja út úr félaginu, hafa þegar 10 þeirra selst. Ágóðinn af sölu þessara eigna og búseturétta í eigu Búmanna styrkir sjóðsstöðu félagsins verulega.

Í máli fulltrúa Íbúðalánasjóðs, en stjórn Búmanna hefur átt frábært samstarf með sjóðnum, kom fram m.a. að mjög góður árangur hefur náðst í allri úrvinnslu við að bjarga félaginu frá gjaldþroti, og mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi. Nefnt var sem dæmi um þennan góða árangur, að gert var ráð fyrir frystingu ákveðinna lánasafna í félaginu til þriggja ára frá 2016 að telja. Frá 1. júní s.l. eru engin lán til Búmanna í frystingu hjá Íbúðalánasjóði og öll lán í skilum. Samningur um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins gildir til 2021 en nú er vonast til þess að hægt verði að losna undan samningnum og aflétta öllum kvöðum vegna hans á árinu 2019.

Í ársreikningi Búmanna fyrir árið 2016 kemur fram að velta félagsins nam 986 milljónum króna. Hagnaður ársins nam 1.206 milljónum króna samanborðið við 271 milljón króna á árinu 2015 og hækkar á milli ára um 935 milljónir króna. Heildareignir félagsins námu 15.369 milljónum  króna í árslok 2016 og hækka um 460 milljónir króna á milli ára. Eigið fé félagsins nemur 2.585 milljónum króna í árslok 2016. Eiginfjárhlutfall í árslok 2016 nam 16.8% samanborðið við 9.2% í upphafi árs. Langtímalán Búmanna nema 11.910 milljónum króna í árslok 2016 og lækka um 1.518 milljónir frá fyrra ári. Lækkunin skýrist af yfirfærslu skulda til leigufélags Búmanna ehf. að fjárhæð 1.131 mílljóna króna og eftirgjöf skulda að fjárhæð 561 milljón. Á árinu voru seldar fasteignir til leigufélags Búmanna ehf.  Eignir Leigufélags Búmanna ehf. námu 1.500 milljónir króna. í árslok 2016

 

Gunnar Kristinsson, formaður Búmanna hsf.