Ágætu búseturétthafar í Grindavík
Á aðalfundi Búmanna þann 23. maí s.l. var fjallað um málefni búseturéttarhafa í Grindavík í tengslum við tillögu stjórnar um að sett yrði sérstakt bráðabrigðaákvæði í samþykktir Búmanna til að félaginu væri gert kleift að ganga til samninga við Fasteignafélagið Þórkötlu ehf. á grundvelli 4. gr. laga nr. 16/2024 um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Tillagan var samþykkt samhljóða á aðalfundinum svohljóðandi:
Stjórn félagsins er heimilt að víkja frá almennum skilmálum búsetusamninga við samningagerð við Fasteignafélagið Þórkötlu ehf., kt. 410424-0750 á grundvelli laga nr. 16/2024 um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Bráðabirgðaákvæði þetta gildir jafnlengi og heimild búseturéttarhafa til uppkaupa samkvæmt framangreindum lögum.
Lögmaður Búmanna, Kristinn Bjarnason hrl., fór á fundinum yfir helstu ástæður þess að stjórn teldi nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði í samþykktir og lýsti jafnframt hvernig stjórnendur Búmanna brugðust við þegar rýming Grindavíkur var ákveðin þann 10. nóvember sl. Kom þar meðal annars fram að búseturéttarhafar í Grindavík hafa ekki verið krafðir um búsetugjöld frá og með desember 2023 en frá sama tíma samþykkti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frestun afborgarna lána á búsetuíbúðum í Grindavík.
Kristinn greindi frá því að Búmenn hefðu sent umsögn til Alþingis við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 16/2024. Þar hafi verið lagt til og rökstutt ítarlega að skynsamlegt væri að uppkauparéttur íbúðarhúsnæðis næði til húsnæðissamvinnufélaga og eftir atvikum annarra óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga en í frumvarpinu, eins og það var lagt fram í þinginu, var hvorki gert ráð fyrir uppkaupum á eignum Búmanna né uppkaupum á búseturétti búseturéttarhafa. Við meðferð málsins hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kom heimild til handa búseturéttarhöfum í Grindavík til að óska eftir uppkaupum á búseturétti og skyldi endurgjald fyrir réttinn vera „95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi búseturéttarhafa“ svo sem nánar greinir í 4. gr. laga nr. 16/2024.
Eftir aðalfund hafa Búmenn hitt fulltrúa Fasteignafélagsins Þórkötlu ehf. á tveimur fundum, 13. og 20. júní, til að ræða skilmála uppkaupa á búseturéttum búseturéttarhafa í Grindavík.
Fram kom á síðari fundinum að til að ljúka gerð skilmála um uppkaupin væri nauðsynlegt að afla nánari upplýsinga um hvernig háttað verði til framtíðar meðhöndlun lána Búmanna sem tengjast eignum félagsins í Grindavík þ.á.m. um áframhaldandi frestun lána og hvernig fari um vexti og verðbætur frá því greiðslufrestun hófst.
Hafa Búmenn þegar óskað eftir fundi með HMS og verður hann haldinn þriðjudaginn 25. júní n.k. Búmenn munu, hér eftir sem hingað til, gera allt sem er í valdi félagsins til að fá botn í mál þannig að búseturéttarhafar í Grindavík geti notið þeirra heimilda og réttinda sem kveðið er á um í lögum nr. 16/2024.
Gunnar Kristinsson, framkvæmdastjóri Búmanna