Þau skilyrði sem sett voru í samningi um fjárhagslega endurskipulagningu milli Íbúðalánasjóðs og Búmanna hafa verið uppfyllt og samningurinn felldur niður. Samhliða því hefur Íbúðalánasjóður fallist á að lækka vexti á þeim húsnæðislánum Búmanna sem borið hafa vexti hærri en 4% og eru vextir lánanna eftir þá breytingu að meðaltali 3,85%.
Stjórn Búmanna hefur samþykkt tillögur um veigamiklar breytingar á samþykktum Búmanna sem stefnt er að leggja fyrir aukaaðalfund sem haldinn verði í desember eða janúar nk. Helsta breytingin sem tillögurnar fela í sér er að deildaskipting félagsins verði aflögð og að allir félagsmenn hafi atkvæðarétt á félagsfundum.
Stjórn Búmanna hefur samþykkt sérstaka söluskilmála vegna viðskipta með búseturétti í búsetuíbúðum félagsins í samræmi við heimild í 30. gr. samþykkta og samhliða því samþykkt breytingar á verðskrá Búmanna. Söluskilmálarnir og hin nýja verðskrá taka gildi þann 15. nóvember 2019.
Lok samnings Íbúðalánasjóðs og Búmanna um fjárhagslega endurskipulagningu.
Á fundi lánanefndar Íbúðalánasjóðs þann 25. september sl. var tekin fyrir greining Íbúðalánasjóðs á stöðu Búmanna. Forsenda þessarar stöðugreiningar var sú að í 3. gr. samnings um fjárhagslega endurskipulagningu sem málsaðilar undirrituðu þann 22. janúar 2016 kom fram að gildistími samningsins skyldi að lágmarki vera þrjú ár með heimild til tveggja ára framlengingar af hálfu Íbúðalánasjóðs. Í 1. gr. segir að samningurinn hafi það að markmiði að færa skuldastöðu Búmanna í það horf að rekstur þess geti staðið undir skuldabyrði og þróun án frekari skuldaskilasamninga við kröfuhafa, formlegra nauðasamninga eða gjaldþrots. Niðurstaða lánanefndar Íbúðalánasjóðs var að ekki væri ástæða til að framlengja samninginn við Búmenn enda hefði rekstur félagsins farið batnandi síðastliðin ár. Taldi Íbúðalánasjóður að markmið samningsins um það að færa skuldastöðu Búmanna í það horf að rekstur geti staðið undir skuldabyrði hafa verið náð miðað við þær rekstraráætlanir sem félagið lagði fram. Samningurinn var því felldur niður frá og með 25. september sl. og þar með þær kvaðir sem hann setti á starfsemi Búmanna.
Vaxtalækkun af lánum Búmanna hjá Íbúðalánasjóði.
Vextir af lánum Búmanna hjá íbúðalánasjóði breyttust frá 1. september 2019 að telja með gjalddaga 1. október og eru nú að meðaltali 3,85%. Öll húsnæðislán félagsins bera nú vexti undir 4% en vextir sem áður voru undir 4% breyttust ekki. Greiðslubyrði vegna vaxta lækkar því hjá langflestum búseturéttarhöfum eins og sjá má á greiðsluseðlum sem sendir voru út með gjalddaga 1. nóvember. Þar sem niðurstaða Íbúðalánasjóðs um vaxtalækkun barst svo skömmu fyrir mánaðarmótin september október var ekki unnt að lækka greiðsluseðla fyrir október og er það leiðrétt í greiðsluseðlum fyrir nóvember. Stjórn og starfsmenn Búmanna munu nú þegar félagið er laust undan kvöðum samkvæmt samningnum við Íbúðalánasjóð fara nánar yfir grundvöll og fjárhæð búsetugjalds allra búsetusamninga félagsins og kunna því að verða frekari breytingar á fjárhæð búsetugjalda en að framan greinir.
Tillögur að breytingum á samþykktum Búmanna.
Í samræmi við það sem kynnt var á síðasta aðalfundi Búmanna var skipaður sérstakur starfshópur til þess að gera tillögur um breytingar á samþykktum félagsins. Tillögur starfshópsins voru unnar í samstarfi við stjórn félagsins og voru endanlegar tillögur samþykktar á stjórnarfundi þann 31. október sl. Jafnframt var samþykkt að leggja tillögurnar fyrir aukaaðalfund til afgreiðslu í desember eða janúar. Helsta breytingin sem tillögurnar fela í sér er að kaflinn um deildaskiptingu félagsins verði felldur út og deildir félagsins þar með lagðar niður. Fulltrúafyrirkomulagið yrði með því lagt af og allir félagsmenn sem sækja aðalfundi og almenna félagsfundi Búmanna gætu greitt atkvæði svo framarlega sem þeir væru félagsmenn um áramót þar á undan og í skilum með félagsgjöld á því tímamarki. Tillögurnar gera jafnframt ráð fyrir að atkvæðavægi búseturéttarhafa verði allt að tvöfalt á við félagsmann sem ekki er búseturéttarhafi.
Sex mánaða milliuppgjör Búmanna.
Fjármálastjóri Búmanna hefur unnið sex mánaða milliuppgjör fyrir félagið. Þar kemur fram að eigið fé þess er 6.5 milljarður króna, rekstrarhagnaður rúmlega milljarður króna, handbært fé frá rekstri rúmlega 77 milljónir króna og handbært fé í lok tímabilsins rúmlega 383 milljónir króna. Fjárhags- og rekstrarstaða félagsins er því góð en hafa verður þó í huga að meginhluti hagnaðar kemur af virðishækkunum fasteigna þess. Milliuppgjörið var samþykkt á stjórnarfundi 31. október sl.
Söluskilmálar og ný verðskrá vegna kaupa og sölu búseturétta.
Samkvæmt 30. gr. samþykkta Búmanna getur stjórn félagsins sett sérstaka söluskilmála vegna viðskipta með búseturétti í búsetuíbúðum félagsins. Með vísan til þess var lögmanni félagsins og framkvæmdastjóra þess falið að gera tillögu að slíkum söluskilmálum og var tillaga að þeim samþykkt á fundi stjórnar Búmanna þann 31. október sl. Söluskilmálar þessir eru ítarlegir og er þeim ætlað að vera vegvísir vegna ýmissa álitaefna sem geta komið upp við kaup og sölu búseturétta. Um leið er verið að ramma inn þær reglur sem um þessi viðskipti hafa gilt og eiga að gilda. Samhliða þessu samþykkti stjórn Búmanna nýja verðskrá sem er ætlað að endurspegla kostnað félagsins af milligöngu þess við aðilaskipti á búseturéttum í búsetuíbúðum þess. Söluskilmálarnir og verðskráin taka gildi frá og með 15. nóvember nk. og gilda um sölubeiðnir sem berast frá því tímamarki.