Samþykktir Búmanna samþykktar á aukaaðalfundi 3. mars 2020
- gr. Viðhaldsskyldur búseturéttarhafa
Búseturéttarhafi skal á eigin kostnað annast viðhald innan búsetuíbúðar sinnar þ.m.t. á fylgifé hennar, svo sem gólf – og veggefnum, tréverki, innréttingum, hurðum, hreinlætistækjum og heimilistækjum. Enn fremur skal búseturéttarhafi annast á sinn kostnað endurnýjun og viðhald á læsingum, vatnskrönum, blöndunartækjum rafmagnstenglum og öðru smálegu.
Verði húsnæðið eða fylgifé þess fyrir tjóni af völdum búseturéttarhafa, heimilismanna eða annarra manna sem hann hefur leyft afnot af húsnæðinu eða umgang um það skal búseturéttarhafi gera ráðstafanir til að bæta úr tjóninu svo fljótt sem verða má. Ef búseturéttarhafi vanrækir þessar skyldur sínar er Búmönnum heimilt að láta fara fram viðgerð á kostnað búseturéttarhafa enda hafi farið fram úttekt á búsetuíbúðinni og álits verið leitað hjá úttektaraðilanum á nauðsyn viðgerðarinnar og áætluðum kostnaði sem henni fylgir. Áður skal þó félagið veita búseturéttarhafa frest í fjórar vikur til þess að ljúka viðgerðinni.
- gr. Viðhaldsskyldur Búmanna. Viðhaldssjóður
Búmenn skulu annast viðhald á ytra byrði húsa félagsins, sem og búnaði, kerfum og lögnum. Skal slíkur kostnaður greiddur úr viðhaldssjóði sem félagið starfrækir.
Stjórn félagsins fer með viðhaldsmálefni félagsins og hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og áætla viðhaldsþörf fasteigna í eigu félagsins, taka ákvörðun um framkvæmdir, hvort heldur að beiðni einstakra búsetufélaga eða að eigin frumkvæði, og hafa yfirumsjón með þeim. Skal stjórn félagsins vera heimilt að leita til sérfræðinga varðandi framkvæmdir, undirbúning þeirra og eftirlit samkvæmt verklagsreglum sem stjórn setur sér um viðhaldsmálefni félagsins. Stjórn skal gera heildaráætlun um viðhald hvers árs og gera tillögur til aðalfundar um greiðslur í viðhaldssjóð.
Félaginu er óheimilt að nýta viðhaldssjóð félagsins til annarra verkefna en þeirra sem getið er í samþykktum þessum og lögum um húsnæðissamvinnufélög. Um tilhöfun framkvæmda, viðhaldsskiptingu og skiptingu kostnaðar vegna viðhalds á búsetuíbúð skal að öðru leyti en kveðið er á um í samþykktum þessum farið samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög.