Yfirlýsing vegna COVID-19

Ágætu félagar,

Við lifum á fordæmalausum tímum. Smitum coronaveirunnar fjölgar dag frá degi og landlæknir telur að smitun muni líklega ná hámarki um páskana.

Vegna þessa ástands tók framkvæmdastjóri þá ákvörðun í samvinnu við umsjónarmann fasteigna hjá Búmönnum,  að draga verulega úr viðhaldi og um leið heimsóknum iðnaðarmanna inn á heimili búseturétthafa. Hafa því öll viðhaldsverkefni verið slegin á frest um óákveðinn tíma nema þau sem falla undir neyðartilvik. Haft hefur verið samband við verktakana og fólk þar sem verkefni stóðu fyrir dyrum. Tóku allir aðilar vel í þessar ráðstafanir enda markmiðið að draga úr líkum á kórónuveirusmiti.

Eins og margoft hefur komið fram í fréttum  er hópur búseturétthafa Búmanna þannig saman settur að hann tilheyrir þeim  áhættuhópi sem hvað mest getur verið útsettur fyrir smiti kórónuveirunnar og þarf því að fara mjög varlega með sig.

Þessi hópur þarf að forðast mannfjölda eins og hægt er, halda tveggja metra fjarlægð eftir megni, þvo sér vel um hendur með vatni og sápu og spritta hendur eftir það eins oft og þurfa þykir. Forðast snertingu við aðra eins og hægt er.

Ráðlagt er að spritta alla helstu snertifleti á heimilinu eins oft og þurfa þykir. Má þar nefna hurðarhúna, handföng á innréttingum og skápum, slökkvara, blöndunartæki,  gluggahandföng og aðra yfirborðsfleti.

Svo er mælt með því að allir hreyfi sig eins og geta þeirra leyfir og hefur það komið fram að t.d. 30 mínútna hreyfing á dag getur haft góð áhrif á mótstöðuafl líkamans. Það er ekki nauðsynlegt að taka allar 30 mínúturnar í einu heldur skipta tímanum eins og fólki hentar best. Margir geta farið í göngutúra, aðrir hreyft sig heima eða skipt hreyfingunni upp í úti og innihreyfingu.

Lagt er til að öllum aðalfundum búsetufélaga verði slegið á frest meðan þetta ástand varir.

Aðalfundi Búmanna, sem ráðgerður var 20. maí n.k. verður líklega frestað til haustsins en upplýsingum þar um verður komið á framfæri í byrjun apríl.

Framkvæmdastjóri vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra er mættu á aukaaðalfundinn á Grand Hótel 3. mars s.l. Þar var fjallað um tillögur stjórnar Búmanna um breytingar á samþykktum félagsins er snúa að því að leggja deildirnar niður og að allir félagsmenn í Búmönnum hafi atkvæðisrétt á aðalfundum hafi þeir greitt félagsgjöld ekki síðar en um áramót.

Tillögur stjórnar voru samþykktar með miklum meirihluta atkvæða. Þetta þýðir að nýtt fyrirkomulag í starfssemi aðalfundar mun koma til framkvæmda á næsta aðalfundi.

Að lokum er ekki úr vegi að minna á það sem stendur í stefnu félagsins „ að sérstök áhersla skal lögð á náungakærleik og samheldni meðal íbúa og félagsmanna“ enda á þetta sérstaklega við núna á þessum fordæmalausu tímum.

Með góðum kveðjum og farið varlega með ykkur

Gunnar Kristinsson
Framkvæmdastjóri Búmanna

Lesa meira