Viðhaldsmál

Viðhald Búmanna h

Í sumar hefur verið unnið mikið að viðhaldi á eignum Búmanna á flestum svæðum Búmanna. Öll stærri verk hafa verið unnin í samstarfi við verktakafyrirtækið Nýhús og formenn búsetufélaganna á þessum svæðum.

Vinna hefur verið í gangi við verkáætlun stærri verkefna fyrir árin 2019 og 2020 . Um er að ræða málun á fjölmörgum eignum Búmanna og ýmsum viðgerðum utan húss. Um leið verður gerð kostnaðaráætlun um þessi verkefni og þau jafnvel boðin út.
Viðhaldskostnaður vegna verkefna sem unnin hafa verið í sumar er nú þegar kominn í rúmar 63 milljónir og er umsýsla skrifstofu Búmanna ekki talin með sem líklega hleypur á 8 milljónum í viðbót.

Frá og með komandi hausti verður unnið við að safna upplýsingum um ástand eigna Búmanna innanhúss, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur, þau kostnaðargreind og unnið við þau í vetur.
Eigi að verða framhald á fyrirliggjandi viðhaldsverkefnum taldi stjórn Búmanna nauðsynlegt að hækka viðhaldsgjaldið sem nú er 0.35% af brunabótamati hverrar eignar Búmanna í 0.5% af brunabótamati hverrar eignar Búmanna. Með þessari hækkun er verið að leitast við að gera viðhaldið sjálfbært þegar stóru verkefnunum lýkur. Það fjármagn sem búseturéttarhafar hafa greitt til Búmanna sem gjald í viðhaldssjóð dugar engan veginn fyrir því gríðarlega viðhaldi sem átt hefur sér stað bæði í sumar og á síðasta ári. Fé hefur einnig verið notað, sem fengist hefur með sölu eigna til að brúa bilið vegna viðhaldskostnaðarins.

Stjórnin lagði fyrir aðalfund Búmanna 7. júní s.l. tillögu um að hækka greiðslu í viðhaldssjóð úr 0.35% af brunabótamati hverrar eignar í 0.5% af brunabótamati hverrar eignar. Var tillaga stjórnar samþykkt að undangenginni atkvæðagreiðslu um breytingartillögu, sem lögð var fram á fundinum, um að hækkunin yrði ekki hærri en 0.4% af brunabótamati hverrar eignar. Sú tillaga var felld og var þá gengið til atkvæða um tillögu stjórnar sem samþykkt var með yfirgnæfandi fjölda atkvæða kjörfundarfulltrúa.
Mun breytingin koma til framkvæmda 1. september eins og næsti greiðsluseðill ber með sér. Hækkunin mun að meðaltali vera á bilinu kr. 4.000 – kr. 6.000.

Að eftirtöldum viðhaldsverkefnum hefur verið unnið í sumar.

Grænlandsleið
Húsin hafa verið háþrýstiveginn og sílanborin til þess að loka sprungum og þau þannig undirbúin fyrir málun. Skyggni yfir útidyrahurðum, sem voru orðin slæm, hafa verið brotin upp, Þau verða síðan flotuð (múrborin) í ágúst. Þá hafa þök verið hreinsuð af gróðri og allar rennur hreinsaðar og losað um stíflur í þeim.
Í vetur verður unnið við að lagfæra útihurðir, sem halda ekki vatni, og unnið við skrásetningu rakaskemmda í eignunum og þær lagfærðar.
Hafist verður handa við að mála glugga og slétta fleti strax í vor.

Ferjuvað
Húsin hafa verið háþrýstiþvegin og sílanborin. Kjallaratröppur, sem voru orðnar hættulegar vegna mosagróðurs, voru hreinsaðar og sílanbornar. Veggir að bílakjallara hafa verið lagfærðir. Gert var við múrskemmdir, þétt í allar sprungur og veggirnir síðan málaðiir.
Farið var yfir öll þök og þau hreinsuð ef ástæða þótti til. Stíflur fjarlægðar ú rennum og gert við leka í einu húsanna.
Til stendur að laga kantsteina til að bæta aðgengi sjúkrabíla að húsunum.
Næsta vor verða gluggar málaðir og allir sléttir fletir.
Í vetur verður farið í að skrásetja viðhaldsþörf innan húss, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur, og viðhald framkvæmt þar sem þörf er á.
Eldvarnareftirlitið mun taka út aðstæður í bílageymslum og sameignum í húsunum.

Prestastígur
Öll þök hafa verið hreinsuð og allur gróður fjarlægður þar á meðal stútungstré. Stíflur í rennum hafa verið fjarlægðar.Raflagnir hafa verið lagfærðar svo að allar íbúðir eru á réttum mælum. Lokið hefur verið við að skrásetja viðhaldsþörf innan dyra að miklu leyti, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur Viðgerðir á lekum í ýmsum eignum er að hefjast. Má þar nefna útihurðir, svalir og glugga. Með haustinu verður farið í að gera við læsingajárn á gluggum og yfirfara svalahurðir.
Fellihurðir inn í bílakjallara verða yfirfarnar og lagfærðar eftir þörfum, Eldvarnareftirlitið mun taka út bílageymslur og sameignir í öllum húsunum.
Allar skolpleiðslur í húsunum hafa verið yfirfarnar og hreinsaðar.

Blásalir
Gert hefur verið við nokkra glugga á austurhlið sem og gert við þéttingar á 10 hæð á þaki. Verið að gera við rakaskemmdir í sameign á 10 og 9 hæð .
þak hefur verið hreinsað og stíflur í rennum fjarlægðar. Stefnt er að því að hefja lagfæringar á lekum frá svölum og flísum í sameign. Að auki verður farið í frekari skrásetningar á viðhaldsþörf í eignunum, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur
Næsta vor verður farið í að ljúka við viðgerðir á lekum gluggum á austurhliðinni (næsta vor) þegar árangur af viðgerðum á lekum gluggum hefur verið metinn. Verkið þarf að vinna úr turnlyftu eins og var gert í sumar.

Hólmvað
Hurð í bílakjallara hefur verið lagfærð. Verið er að ljúka við viðgerðir á svalagólfum á svölum sem liggja að útidyrum íbúðanna á tveimur hæðum. Gólfin þurfti að brjóta upp, lagfæra vatnshalla og flota(steypa gólfin). Verður verkinu lokið fjótlega.
Lagfærðir verða lekar frá nokkrum svalahurðum. Gert er ráð fyrir því að safna upplýsingum um viðhaldsþörf innan húss, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur
Mælt verður með því að eldvarnareftirlitið taki út bílageymslur og sameign í bílakjallara.

Suðurtún
Lokið hefur verið við að lagfæra hitalagnir í einu húsi og til stendur að skrásetja viðhaldsþörf vegna hitalagna í húsunum. Verið er að mála glugga í húsunum og lagfæra múrskemmdir þar sem það á við. Frekari viðhaldsþörf utanhúss verður skoðuð með haustinu. Bílskúrshurð í einu húsi hefur verið lagfærð og verður viðhaldsþörf vegna bílskúrshurðanna metin með haustinu.

Stekkjargata
Verið er að háþrýstiþvo öll húsin og sílanbera þau til þess að loka sprungum og rakaverja þau. Lokið hefur verið við um helming húsanna. Skoða þarf leka í sólstofum í mörgum húsana. Fara þarf kerfisbundið yfir hitalagnir í flestum húsanna og lagfæra gólfhita.
Næsta vor verður farið í að mála húsin. Þó verður reynt að mála þau hús sem verst eru farin, ef veður gefst, seinni parts sumars.

Suðurgata, Sandgerði
Þar er skrásetningu lokið á viðhaldsþörf innan dyra, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur. Í sumar verður farið í að skipta um gler í nokkrum gluggum, endurnýja læsingajárn í öllum íbúðum, setja fellilista í útihurðir. Settir verða upp nýir tenglar og útiljós á svalir og stefnt að því að gera við leka í tveimur íbúðum eins fljótt og kostur er. Skipt verður um dyrasíma og settir upp myndsímar í samstarfi við sameinað sveitarfélag Sandgerðis og Garðs.
Stefnt er að því hefja málun á álmu Búmanna strax næsta vor.

Garður
Þar eru nokkur hús sem eru með lekavandamál sem verur farið yfir kerfisbundið nú í ágúst og september. Hafa viðgerðir þegar farið fram í nokkrum húsum. Stefnt er að því að hefja skrásetningu á viðhaldsþörf bæði innan húss og utanhúss með haustinu, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur.

Smyrlaheiði og Réttarheiði
Töluverðar viðhaldsframkvæmdir hafa átt sér stað í Smyrlaheiði. Aðallega hafa þær snúist um leka frá gluggum í svefnherbergjum. Nú síðast í ágúst var gert við leka frá gluggum í tveimur húsum. Gert hefur verið við leka í þaki á einu húsi í Réttarheiði.
Til stendur að skárasetja viðhaldsþörf í Réttarheiði og Smyrlaheiði með haustinu, sem að viðhaldssjóði Búmanna lýtur.

Akranes
Brunavarnir innan húss í Þjóðbraut 1 á Akranesi hafa verið í ólestri allt frá því að byggingu hússins átti að vera lokið. Í sumar voru haldnir nokkrir fundir með slökkviliðsstjóra, byggingafulltrúa og iðnaðarmönnum ásamt formanni búsetufélagsins og búseturétthafa sem unnið hefur náið með framkvæmdastjóra við stjórnun verksins. Lokið er við að reykþétta með öllum lögnum í bílakjallara og bílageymslum, koma vatnsúðarakerfinu í lag, lagfæra rafmagnskerfi hússins, reykþétta með gluggum í neyðarstigagangi hússins, setja felliþröskulda í allar hurði inn í íbúðirnar, lagfæra hurðir inn í þvottahúsin, koma upp vatnsviðvörunarkerfi í íbúðunum auk fleirri verkefna. Vonast er til þess að úttekt fari fram af hálfu slökkviðliðs Akraness fljótlega.Stefnt er að því að liðka lamir á svalhurðum með haustinu. Leitað verður lausna í vetur hvernig best verður að lagfæra lekavandamál í gluggum svo hægt verði að byrja á því naæsta vor.

Akureyri
Til stóð að mála eignir Búmanna í Melateig, Vaðlatúni og Klettatúni í sumar en þegar til átti að taka gat málarinn ekki tekið þau verk að sér og verður hafist handa við málun næsta vor.
Önnur svæði sem á eftir að skrásetja viðhaldsþörf í eru Grindavík, Vogar, Miðnestorg og Höfn í Hornafirði.

Auk þessara verkefna hefur verið unnið við ýmiss konar tilfallandi viðhald á nokkrum svæðum s.s. stíflur, gluggar og lekar.

Lesa meira